Iclandair Hotels hlaut verðlaun fyrir að vera menntafyrirtæki ársins 2016 í dag. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra afhenti í morgun verðlaunin á menntadegi atvinnulífsins sem var haldinn í þriðja sinn á Hilton Reykjavík Nordica.

Hildur Elín Vignir, formaður dómnefndar og framkvæmdastjóri Iðunnar, gerði grein fyrir valinu. Í rökstuðningi dómnefndar segir að hjá Icelandair Hotels sé unnið af mikilli fagmennsku og metnaði að fræðslumálum starfsmanna. Þar starfa að meðaltal um 700 manns af 25 þjóðernum og er markið fyrirtækisins að allir starfsmenn geti sótt sér fræðslu við hæfi.

„Fræðslumál eru forgangsmál hjá Icelandair hótelum og sú fjárfesting hefur skilað sér í auknum gæðum og starfsánægju. Verkefninu er hvergi nærri lokið og munum við halda áfram að þróa fræðslumálin til að standa undir síbreytilegum þörfum viðskiptavina og starfsfólks,“ segir Erla Ósk Ásgeirsdóttir, forstöðumaður starfsmanna-og gæðasviðs hjá Icelandair Hotels.

Í dómnefndinni sátu auk Hildar Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Steinn Logi Björnsson forstjóri Bláfugls og Þorsteinn Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Securitas var valinn menntasproti ársins en mikið og öflugt frumkvöðlastarf er unnið í fræðslumálum hjá fyrirtækinu. Securitas hefur tileinkað sér nýjustu tækni í miðlun fræðslu og náð mjög góðum árangri í svokallaðri speglaðri kennslu.