Icelandair Hotels tapaði 1,8 milljörðum króna fyrir skatta á tímabilinu 1. janúar til 30. júní 2021. Hótelkeðjan tapaði 5,9 milljörðum króna árið 2020, en þetta kemur fram í ársreikningi.

Eiginfjárhlutfallið var 6 prósent í lok tímabilsins. Tekjurnar helminguðust á milli ára og námu 1,5 milljörðum á tímabilinu. Tap hótelkeðjunnar fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta dróst lítillega saman á milli ára í 350 milljón krónur á tímabilinu úr 850 milljónum króna árið áður.

Árið 2020 seldi Icelandair Group 75% hlut í Icelandair Hotels og tengdum fasteignum félagsins til Berjaya Land Berhard, en stofnandi félagsins er Vincent Tan, eigandi velska knattspyrnuliðsins Cardiff City. Í febrúar 2021 lauk sölu samsteypunnar á þeim 25% sem eftir stóðu til sama félags, en söluferlinu lauk formlega í ágúst 2021. Í framhaldinu verður nafni félagsins breytt og keðja Icelandair Hotels endurmörkuð árið 2022.

Nýlega jók Berjaya hlutafé Icelandair Hotels um tæpa tvo milljarða króna, eins og kom fram í grein hjá ViðskiptaMogganum .

Nýtt hótel í Reykjavík

Það liggur fyrir að sérleyfissamningi Icelandair Hotels við tvö landsbyggðarhótel muni ljúka á þessu ári. Hótelin sem um ræðir eru Icelandair Hótel Hamar og Icelandair Hótel Flúðir.

Nýtt hótel á vegum Icelandair Hotels mun opna í Reykjavík innan tíðar og mun það bera nafnið Iceland Parliament Hótel. Það státar 163 herbergjum, veitingastað, veislusal, fundarherbergjum, líkamsrækt og spa.

Hótelið átti upphaflega að opna sumarið 2022, en samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans munu þær áætlanir ekki standast. Hökt er á aðfangakeðjum og enn á eftir að tryggja innréttingar og húsbúnað í hótelið.