Icelandair hefur ákveðið að flytja svæðisskrifstofu félagsins í Bandaríkjunum frá Columbia í Maryland til Boston. Jafnframt verða gerðar umtalsverðar breytingar á starfseminni ytra, sem m.a. felur í sér að hluti verkefna hennar, og störf, flytjast til Íslands.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair en eftir breytinguna og flutninginn til Boston verður lögð höfuðáhersla á markaðs- og sölustarf á skrifstofu félagsins í Bandaríkjunum.

Annað, eins og farmiðaútgáfa, verðlagning, bókhald og ákveðin starfsemi Icelandair Holidays verður að stórum hluta flutt yfir á aðalskrifstofur Icelandair hér á Íslandi. Gert er ráð fyrir að flutningum verði lokið um 15. ágúst.

„Við höfum verið að gera mjög miklar breytingar á starfsemi Icelandair erlendis í hagræðingarskyni síðastliðið ár. Við erum að verja störf hér á Íslandi með því að nýta okkur stærðarhagkvæmni og tækninýjungar.  Fyrir ári síðan störfuðu hátt í 70 manns hjá okkur á svæðisskrifstofunni í Maryland, en við gerum ráð fyrir að innan við 30 muni verða starfandi í Boston, eða um 40 færri", segir Helgi Már Björgvinsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair í tilkynningunni.

„Við höfum flutt starfsemi þjónustuvera okkar erlendis hingað heim að undanförnu, og þannig eflt starfsemina hér og aukið við þjónustuna. Opnunartími hefur verið lengdur og símtölum viðskiptavina bæði austan hafs og vestan er nú svarað hér heima. Í þjónustuverinu er öflugur hópur starfsmanna sem talar fjölmörg tungumál og er símtölum sjálfkrafa vísað á starfsmenn eftir því frá hvaða löndum þau berast. Þannig hefur tekist að verja störf hér á Íslandi, þrátt fyrir samdrátt í utanferðum Íslendinga.“

Svæðisskrifstofa Icelandair hefur verið staðsett í Cloumbia í Marylandfylki í um tvo áratugi en var lengst af í New York. Svæðisstjóri Icelandair fyrir Bandaríkin og Kanada er Þorsteinn Egilsson.