Björgólfur Jóhannsson er formaður Samtaka atvinnulífsins og hefur verið það frá árinu 2013. Hann er einnig forstjóri Icelandair Group en hefur lengst af starfað sem endurskoðandi og í sjávarútvegi.

Eins og staðan er nú horfir Björgólfur upp á verkföll á öllum vígstöðvum, líka hjá starfsmönnum Icelandair Group.

Stefnir í verkföll hjá ykkur?

„Já. Við erum með starfsfólk sem er í Flóabandalaginu, til dæmis í flugþjónustu hjá IGS í Keflavík og á Reykjavíkurflugvelli. Við erum með VR-hópa sem fara í verkfall, bæði í Keflavík og í höfuðstöðvunum. Síðan eru væntanlega iðnaðarmenn sem munu hafa áhrif á okkur. Það er ekkert af flugfólkinu sem er að fara í verkfall hins vegar. En það er alveg ljóst að ef af verður hefur það veruleg áhrif á okkur.“

Ef til þess kæmi, sérðu fyrir þér að þú og aðrir stjórnendur gangið í þessi störf?

„Það eru reyndar fordæmi fyrir því. Þá minnir mig að félagið hafi verið með átta vélar en nú erum við með 24. Þó að ég sé margra manna maki þá held ég að ég sé ekki í þeirri stöðu að vera bæði að innrita fólk, hlaða vélar, dæla bensíni og svo framvegis,“ segir Björgólfur og hlær. „Við getum afgreitt einhvern hluta af okkar starfsemi en það verður óneitanlega takmarkað,“ segir hann hins vegar á alvarlegri nótum.

Björgólfur er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .