*

miðvikudagur, 27. október 2021
Innlent 1. nóvember 2017 14:10

Icelandair í samstarf með HÍ og HR

Félagið hefur komið á fóti sjóðum til styrktar á verkefnum nemenda sem tengjast flugi og flugrekstri.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Icelandair hefur gert samstarfssamning við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík um að koma á fót sjóðum til styrktar verkefnum sem tengjast flugi og flugtengdri starfsemi. Icelandair mun leggja til fjármuni í sérstaka sjóði sem eru í vörslu og umsjón skólanna sem sjá um úthlutun og ákvörðun upphæða styrkja. Styrkjunum er fyrst og fremst ætlað að styðja við verkefni nemenda á meistara- og doktorsstigi. 

Í fréttatilkynningu er haft eftir Birki Hólm Guðnasyni, framkvæmdastjóra að Icelandair vilji með samstarfinu styðja við þekkingaröflun á þessu sviði. „Flugið er orðið að undirstöðuatvinnuvegi á Íslandi og Icelandair er þar leiðandi aðili. Með þessu samstarfi viljum við hvetja til aukinnar menntunar og þekkingar á þessu sviði. Það er mikilvægt fyrir félagið og fyrir samfélagið,“ segir Birkir og bætir því að Icelandair vonist til að þess samstarfið ýti enn frekar undir að ungt og hæft fólk haldi áfram að leita inn í greinina.

Í fréttatilkynningunni fagnar Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands samstarfinu. „Háskóli Íslands er alhliða háskóli og leggur áherslu á að eiga náið samstarf við íslenskt atvinnulíf.  Háskóli Íslands býður upp á fjölmargar greinar sem tengjast flugi og flugrekstri. Fjármunirnir verða nýttir til stuðnings við verkefni nemenda í doktors- og meistaranámi í þessum greinum. Þeir munu án efa nýtast vel. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við Icelandair,“ segir Jón Atli. 

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík tekur í sama streng og segir flugið eina mikilvægustu atvinnugrein á Íslandi. “Það er í dag orðið burðarás í samfélagi og efnahagslífi landsins. Háskólinn í Reykjavík hefur í mörg ár átt í góðu samstarfi við Icelandair við að efla þekkingu og menntun á sviði flugþjónustu.  Við fögnum því innilega þessu framlagi sem mun nýtast vel til að styrkja verkefni nemenda sem tengjast flugi og flugþjónustu,” sagði hann.

Stikkorð: HR menntun icelandair