Icelandair og Styrktarfélag Krabbameinssjúkra barna hafa skrifað undir samstarfssamning til fimm ára. Óskar Örn Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna og Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri sölu og markaðssviðs Icelandair, lýstu mikilli ánægju með samninginn sem þeir telja að hafi mikið gildi fyrir báða aðila, samkvæmt því sem segir í fréttatilkynningu vegna undirritunarinnar.

Í fréttatilkynningunni er haft eftir Gunnari Má Sigurfinnssyni, framkvæmdastjóra sölu og markaðssviðs Icelandair: „Það er okkur hjá Icelandair alltaf sérstakt ánægju efni að fljúga með börnin á vit ævintýranna í skemmtiferðir og það er okkur mikil heiður að fá að styðja sérstaklega við bakið á börnum sem berjast við þennan alvarlega sjúkdóm. Með þessum nýja samstarfssamningi festum við þetta samstarf okkar við Styrktarfélag Krabbameins Sjúkrabarna í sessi.“

Af þessu tilefni sagði Óskar Örn Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Styrktarfélags Krabbameinssjúkra Barna: „Það er afar dýrmætt fyrir okkur að finna að það séu fyrirtæki sem eru tilbúin til þess að taka þátt í þessari barráttu með okkur og okkur finnst það stórkostlegt að Icelandair hafi ákveðið að styrkja okkur með þessum hætti,” segir í tilkynningunni.