Dohop framkvæmdi nýlega ferðakönnun þar sem meðal annars var spurt um uppáhalds flugfélag. Af þeim rúmlega 1200 sem svöruðu sagði helmingur að Icelandair væri uppáhaldsflugfélagið.

Valið var af lista flugfélaga þar sem öll helstu flugfélög sem halda uppi áætlunarflugi til Íslands stóðu til boða, en í öðru sæti var WOWair með 5%, næst easyJet með 2% og SAS með 1%. Heil 33% aðspurða áttu sér ekkert uppáhalds flugfélag eða töldu flugfélagið ekki skipta máli þegar farið var í frí.

Fleiri af yngri kynslóðinni á aldursbilinu 18 - 44 ára sögðu að flugfélagið skipti þá ekki máli eða um 36%. Eldra fólk, 45 ára og eldra, var líklegra til að svara því að Icelandair væri uppáhaldsflugfélagið þeirra eða 52%.

Þegar spurt var um það hversu oft fólk hafði farið erlendis á árinu kom í ljós að 82% aðspurðra hafði farið í að minnsta kosti eina utanlandsferð og að helmingur svarenda, eða 48%, hafði farið í fleiri en eina utanlandsferð það sem af er ári. Næstum tíundi hver sem svaraði könnuninni hefur farið fimm sinnum eða oftar til útlanda á árinu en nærri fimmtungur hefur ekkert ferðast erlendis á þessu ári.

Könnunin var send út á íslenska fylgjendur Dohop á Facebook, 33.000 talsins, auk þeirra Íslendinga sem skráðir eru á póstlista Dohop, um 7000 til viðbótar. Alls svöruðu 1257; 436 karlmenn og 821 kona. Könnunin var opin frá16. til 24. október. Spurt var um ferðahegðun, notkun snjallsíma og annað sem tengist ferðalögum Íslendinga.