Gunnlaugur M. Sigmundsson, stjórnarformaður Icelandair Group, sagði á aðalfundi félagsins fyrr í mánuðinum að stór hluti þeirra fjármuna sem félagið hefði varið til auglýsinga undangengin ár og áratugi hefði farið til þess að auglýsa Ísland.

„Með síaukinni samkeppni á flugleiðum til og frá Íslandi hlýtur að koma til endurskoðunar á því hvernig félagið ver fjármunum til markaðsmála. Það er því fyrirséð að ef stjórnvöld vilja stuðla að árlegri aukningu ferðamanna til Íslands þurfa þau sjálf að verja auknum fjármunum í þessu skyni," sagði hann.

Icelandair ver árlega miklum fjármunum, að sögn Gunnlaugs, eða um einum milljarði króna, í auglýsingar og ímyndarsköpun.

„Ef taka á mark á opinberum áætlunum um vaxandi fjölda farþega sem leggja leið sína til Íslands á komandi árum, er ljóst að þörf verður á auknu framboði flugsæta ef anna á aukinni eftirspurn," sagði Gunnlaugur.