Icelandair krefur íslenska ríkið um endurgreiðslu á 187 milljónum króna vegna ofgreiðslu við tollafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli.

„Við teljum að hún hafi á sínum tíma verið ólögmæt og að gjaldheimtan hafi verið meiri en heimildir stóðu til,“ segir Davíð Þorláksson, aðallögfræðingur Icelandair.

Málið snýst um það að við hverja lendingu véla á Keflavíkurflugvelli þarf að greiða tollafgreiðslu á grundvelli gjaldskrár. Árið 2009 hækkaði tollstjórinn hins vegar gjaldskránna umfram verðlag, að mati forsvarmanna Icelandair, og afgreiðslutíma tollafgreiðslu breytt sem olli því að vélar í Ameríkuflugi sem lenda snemma dags og falla utan afgreiðslutíma þurftu að greiða hærra gjald en áður.

„Þetta var dulin aukagjaldtaka,“ segir Davíð. Mál flugfélagsins gegn íslenska ríkinu verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.