Icelandair mun fljúga fimm til sex sinnum í viku til Fær­eyja frá 1. maí og út októ­ber á næsta ári.

Um er að ræða morgun­flug frá Kefla­víkur­flug­velli og tengist á­fanga­staðurinn, sam­kvæmt til­kynningu, því mjög vel inn í leiða­kerfi Icelandair í Kefla­vík. Flug­tími er ein klukku­stund og 45 mínútur.

„Fær­eyjar eru í miklum vexti sem ferða­manna­staður enda hafa þær upp á margt að bjóða. Stór­brotin og ó­spillt náttúra ein­kennir eyjarnar sem stað­settar eru mitt á milli Ís­lands og Skot­lands. Fær­eyjar hafa lengi verið vin­sæll á­fanga­staður meðal Ís­lendinga enda er þessi frænd­þjóð okkar þekkt fyrir ein­staka gest­risni og frá­bæra matar­menningu,“ segir í til­kynningunni.

Icelandair og fær­eyska flug­fé­lagið At­lantic Airwa­ys hafa einnig undir­ritað vilja­yfir­lýsingu um sam­starf til að bjóða við­skipta­vinum fé­laganna þægi­legar tengingar á milli Fær­eyja og á­fanga­staða Icelandair í Evrópu og Norður-Ameríku.

„Það er mjög á­nægju­legt að kynna flug til Fær­eyja. Fær­eyjar eru vaxandi á­fanga­staður og við finnum fyrir miklum á­huga á flugi þangað hjá við­skipta­vinum okkar um allan heim. Tengsl Fær­eyinga og Ís­lendinga hafa alltaf verið mikil og okkar von er sú að með aukinni ferða­tíðni muni þau tengsl og sam­vinna styrkjast enn frekar. Í þeim anda munum við nú hefja vinnu við að efla sam­starf okkar við At­lantic Airwa­ys. Við höfum í gegnum árin átt í góðu sam­starfi við fé­lagið en sjáum mikil tæki­færi í að efla það enn frekar,“ segir Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelandair, í til­kynningu.

„Hlut­verk At­lantic Airwa­ys er að tengja Fær­eyjar um­heiminum. Við höfum átt í góðu sam­starfi við Icelandair um ára­tuga­skeið og tengt Fær­eyjar við Ís­land. Banda­rískir ferða­menn eru vaxandi hópur og mikil­vægur fyrir fær­eyska ferða­þjónustu og þessi vilja­yfir­lýsing greiðir leiðina að því að tengjast betur Ís­landi og öflugu leiða­kerfi Icelandair til Banda­ríkjanna og Evrópu,“ segir Jóhanna á Bergi, for­stjóri At­lantic Airwa­ys.

© Aðsend mynd (AÐSEND)