Icelandair Group hefur ákveðið að taka Boeing 737 MAX 8 flugvélar sínar úr rekstri um óákveðinn tíma. Félagið er með þrjár slíkar vélar í rekstri samkvæmt tilkynningu frá Icelandair Group. Ákvörðunin kemur í kjölfar flugslyss Ethiopian Airlines um helgina á sambærilegri vél, með 157 manns um borð. Flugmálayfirvöld á Bretlandi bönnuðu vélarnar fyrr í dag í sinni lofthelgi og þá hefur Norwegian Air kyrrsett sínar flugvélar.

„Félagið fylgist náið með þróun mála og vinnur áfram með flugmálayfirvöldum á Íslandi, í Evrópu og Bandaríkjunum varðandi næstu skref. Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir, þá öryggisferla sem félagið fylgir, sem og þjálfun áhafna þess, telur félagið vélarnar öruggar," segir í tilkynningu frá Icelandair.

Til skamms tíma mun þessi ráðstöfun hafa óveruleg áhrif á rekstur félagsins þar sem aðeins er um 3 vélar að ræða af 33 farþegavélum í flota félagsins og því hefur félagið svigrúm til að bregðast við á næstu vikum samkvæmt tilkynningunni. Icelandair hefur gengið frá fjármögnun á níu Boeing 737 MAX 8 flugvélum til viðbótar sem eiga að koma til landsins á þessu ári og því næsta. Þá á Icelandair kauprétt að á þremur Boeing 737 MAX 8 flugvélum þar að auki.