Rautt var yfir að litast í Kauphöllinni í dag en gengi allra félaga sem skráð eru á aðalmarkaðinn, að undanskildum Heimavöllum, lækkaði í viðskiptum dagsins. Úrvalsvísitalan OMXI10 lækkaði fyrir vikið ansi mikið, eða um 2,84% og stendur hún nú í 1.978,34 stigum. Heildarvelta viðskipta dagsins nam 5,8 milljörðum króna.

Miklar lækkanir hafa herjað á aðalmarkað Kauphallarinnar í þessari viku og má ætla að þær komi til vegna smit áhrifa frá erlendum mörkuðum, þar sem auknar áhyggjur af áhrifum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar, COVID-19, á heimshagkerfið hafa valdið töluverðum lækkunum á nær öllum hlutabréfamörkuðum heimsins í vikunni.

Gengi bréfa Icelandair lækkaði mest í viðskiptum dagsins, um 9,69% í 200 milljóna króna veltu. Gengi bréfa félagsins hafa verið í frjálsu falli í þessari viku og hafa lækkað um 28% frá opnun markaða á síðastliðinn mánudagsmorgun.

Gengi bréfa Símans lækkaði næst mest eða um 4,23% í 455 milljóna króna veltu. Líkt og fyrr segir var Heimavellir eina félagið sem ekki lækkaði í viðskiptum dagsins, en gengi félagsins stóð í stað í dag, enda áttu sér ekki stað ein einustu viðskipti með bréf félagsins.