Einungis þrjú félög hækkuðu í virði í viðskiptum dagsins í kauphöllinni, en öll hin félögin lækkuðu, í heildarviðskiptum sem námu 3,9 milljörðum króna. Mest lækkun var á bréfum Icelandair, eða um 3,80%, niður í 7,85 krónur, í 270 milljóna króna viðskiptum en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun lækkuðu bréf félagsins, sem og Marel hratt í dagsbyrjun.

Mestu viðskiptin voru með bréf Marel, eða fyrir 614 milljónir króna en bréf félagsins lækkuðu um 2,83%, niður í 583 krónur, sem jafnframt er þriðja mesta lækkunin með bréf í einu félagi í dag. Næst mest lækkun var á gengi bréfa Haga, eða um 2,87%, í 112 milljóna króna viðskiptum og fór gengi bréfanna niður í 49,05 krónur.

Næst mestu viðskiptin voru með bréf VÍS, eða fyrir 603 milljónir króna, og lækkuðu þau um 1,42%, niður í 11,83 krónur. Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf Arion banka, eða fyrir 420,8 milljónir króna, en bréf bankans hækkuðu jafnframt mest í kauphöllinni í dag eða um 1,89%, upp í 81 krónu hvert bréf.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa Sjóvá, eða um 0,77%, upp í 19,65 krónur, í 213 milljóna viðskiptum en þriðja félagið sem hækkaði var Brim, sem hækkaði um 0,64%, upp í 39,10 krónur, í einungis 4 milljóna króna viðskiptum.

Gengi evrunnar stóð í stað gagnvart íslensku krónunni í viðskiptum dagsins, og kostar hún 136,95 krónur, meðan gengi Bandaríkjadals styrktist um 0,04% gagnvart krónunni, og fæst dalurinn nú á 124,30 krónur. Breska pundið veiktist um 0,01%, niður í 162,35 krónur.

Mesta breytingin var þó á gengi norsku krónunnar sem veiktist um 0,89%, niður í 13,616 krónur, og svo japanska jensins sem styrktist um 0,37%, upp í 1,1402 krónur.