*

mánudagur, 1. júní 2020
Innlent 10. júlí 2019 16:28

Icelandair lækkaði um nærri 5%

Eftir hækkun í kjölfar góðra farþegatalna í gær lækkaði flugfélagið á ný eftir fréttir dagsins í dag.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi lækkaði um 0,88%, niður í 2.038,61 stig í 1,3 milljarða heildarviðskiptum í kauphöllinni í dag.

Eina fyrirtækið sem hækkaði á hlutabréfamarkaði var Reginn, en bréf þess hækkuðu um 0,46% í 55 milljóna króna viðskiptum, en samkvæmt Keldunni voru engin viðskipti með 9 félög í kauphöllinni í dag.

Hins vegar lækkaði gengi annarra 9 félaga, mest bréfa Icelandair, um 4,69%, í jafnframt mestu viðskiptunum með eitt félag, eða fyrir 245 milljónir króna. Lokagengi bréfanna var 9,96%, en bréf félagsins hækkuðu um 2,45% í gær og enduðu þá í 10,45 krónum, eftir að félagið birti farþegatölur júnímánaðar.

Í dag bárust hins vegar fréttir af því að félagið þyrfti að fella niður flug í haust og framlengja leigusamninga vegna fjarveru Max véla félagsins.

Næst mestu viðskiptin voru með bréf Haga, eða fyrir milljón krónum minna, 244 milljónir, en bréf félagsins lækkuðu um 0,35%, niður í 43,20 krónur. Næst mest lækkun var á gengi bréfa Marel, eða um 1,08% í 59 milljón króna viðskiptum og nam lokagengi bréfanna 548,00 krónum.

Stikkorð: Hagar Marel Kauphöll Icelandair Reginn Nasdaq á Íslandi