Hlutabréf Icelandair lækkaði um 6% í 221 milljón króna veltu í dag. Hlutabréfaverð Icelandair var nokkuð stöðugt í allan dag en lækkaði skyndilega úr 1,42 krónum á hlut í 1,3 á tíu mínútum eftir að fréttir bárust af mögulegu gosi á Reykjanesi í kringum þrjú leytið. Gengi félagsins endaði þó í 1,35 við lokun Kauphallarinnar.

Velta hlutabréfamarkaðs Kauphallarinnar nam alls 5,5 milljörðum króna í dag. Hugbúnaðarfyrirtækið Origo hækkaði mest allra félaga eða um 3,1% í 218 milljóna króna viðskiptum. Eimskip og Reginn fylgdi því eftir í 1,9% hækkun.

Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem lækkuðu um 1,8% í 1,2 milljarða króna veltu. Næst mesta veltan, eða um 901 milljón króna, var á hlutabréfum Kviku banka sem hækkaði um 0,3%.