Eldsneytisgjöld Icelandair voru lækkuð um fimmtán prósent um mánaðamótin og eiga lægstu fargjöld að lækka sem nemur breytingunni, samkvæmt upplýsingum frá Icelandair. Þetta kemur fram á vefsíðunni túristi.is .

Í haust hafði Túristi það eftir Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair, að eldsneytisgjald félagsins sé reglulega tekið til endurskoðunar og að ef kostnaður lækki komi það fram í fargjöldunum. Olíuverð hefur lækkað umtalsvert undanfarið og er lægra en verið hefur í tvö ár. Því er hægt að lækka gjöldin nú.

Eldsneytisgjald í Evrópuflugi lækkar úr 9.200 í 7.900 en úr 16.400 í 13.900 í N-Ameríkuflugi.