Icelandair lækkaði mest allra félaga í kauphöllinni í dag, eða um tæp 3,6% í 259 milljóna veltu. Þetta er í annað sinn í þessari viku sem að flugfélagið leiðir dagslækkanir en síðastliðinn þriðjudag lækkaði félagið um 1,9% og frá áramótum hafa bréf félagsins lækkað um 5,5%.

Mun fleiri rauðar tölur var að finna við lokun kauphallarinnar í dag, en hlutabréf fimmtán félaga kauphallarinnar lækkuðu í dag. Reitir lækkaði næst mest í dag, um 1,7% í 263 milljóna króna veltu. Þá lækkaði Síminn um 1,7% í 68 milljóna veltu.

Langsamlega mesta velta dagsins var með bréf Marel, en félagið lækkaði um 0,1% í 1,5 milljarða veltu. Næst mesta veltan var með bréf Arion banka en þau lækkuðu um 1,1 í 363 milljóna króna veltu.

Skeljungur hækkaði mest í dag, um 1,49% í 385 þúsund króna veltu. Fyrr í dag bárust fréttir af því að Skeljungur hefði ákveðið að framlengja tímafrest til að leggja fram tilboð í P/F Magn út af miklum áhuga fjárfesta. Þá hækkaði Kvika næst mest, eða um 0,2% í 218 milljóna króna veltu.