Icelandair Group hefur fallið um 14,2% það sem af er degi í Kauphöll Íslands. Félagið birti uppgjör í gær sem var talsvert undir væntingum og stendur gengi bréfanna nú í 8,81 krónu á hlut. Gengi bréfanna féll mest um 22% í upphafi viðskipta í morgun en sú lækkun hefur að hluta gengið til baka. Velta með bréf félagsins hefur það sem af er degi numið 69 milljónum króna.

Félagið tapaði 6,7 milljörðum króna á síðasta ári og búast forsvarsmenn félagsins við að afkoman á fyrsta ársfjórðungi verði nokkuð verri en á sama tíma fyrir ári. Þá treysti félagið sér ekki til að birta afkomuspá fyrir þetta ár vegna óvissu í tekjuspám og óvissu á íslenskum vinnumarkaði.

EBITDA (rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta) Icelandair í fyrra nam 76,5 milljónum dollara en upphafleg afkomuspá gerði ráð fyrir EBITDA á milli 170 og 190 milljónir dollara. Því var EBITDA Icelandair um 40%-45% af upphaflegri afkomuspá.