Töluverðar lækkanir hafa verið á hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar það sem af er morgni en úrvalsvísitalan hefur lækkað um 6,1% í tæplega 700 milljóna viðskiptum.

Alls hafa 18 félög af 20 lækkað í verði á meðan Heimavellir og Brim hafa staðið í stað. Alls hefur gengi 13 félaga lækkað um meira en 5%. Töluverður munur er á milli kaup- og sölutilboða á markaðnum en að meðaltali er munurinn þegar þetta er skrifað 3,7%

Mest lækkun hefur verið á bréfum Icelandair Group eða 18% í 16 milljóna viðskiptum sem hafa þó verið 44 talsins sem samsvarar meðalstærð viðskipta upp á rúmlega 370 þúsund krónur. Þá hafa bréf Iceland Seafood lækkað um 11,7% í enn minni viðskiptum auk þess sem bréf Kviku hafa lækkað um 11% í rúmlega 9 milljóna viðskiptum.

Mest velta hefur verið með bréf Marel sem hafa lækkað um 6,7% í 228 milljónaviðskiptum.