Gengi hlutabréfa Icelandair Group hefur lækkað um 3,9% í 54 milljóna viðskiptum það sem af er degi. Lækkunin kemur í kjölfarið á tilkynningu félagsins frá því fyrr í morgun þar sem fram kom að félagið gerði ekki ráð fyrir Boeing 737 MAX vélum í leiðakerfi sínu fyrr en í maí. Icelandair hafði áður gert ráð fyrir að taka vélarnar í notkun í mars.

Tilkynning Icelandair kom í kjölfar tilkynningar frá Boeing um að ákveðið hefði verið að framleiðsla á vélunum hefði verið stöðvuð sem þykir gefa til kynna að lengra kunni að vera í að vélarnar taki á loft á nýjan leik en áður hafi verið búist við.

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,3% það sem af er degi en alls hafa sjö félög lækkað. Gengi bréfa Kviku banka hefur lækkað um 1% í 6 milljóna viðskiptum, bréf Arion banka um 0,74% í 153 milljóna viðskiptum og bréf Haga um 1% í 22 milljóna viðskiptum. Bréf Marel eru þau einu sem hafa hækkað það sem af er degi eða um 0,16% í litlum viðskiptum.