Gengi bréfa Icelandair hefur lækkað um 4,0% í 177 milljónir króna viðskiptum samhliða nokkuð rauðum degi í kauphöllinni. Hefur dagslokagengi bréfanna ekki farið undir 7 krónurnar síðan 30. október á síðasta ári, en þá var lokagengi bréfa félagsins 6,67 krónur.

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,35% í viðskiptum dagsins,  og fór hún niður fyrir 2.000 stiga múrinn, eða niður í 1.998,71 stig. Viðskiptin hafa numið 2,9 milljörðum króna.

Önnur bréf sem hafa lækkað mikið það sem af er degi er Skeljungur sem lækkað hefur um 1,53%, í 333 milljóna viðskiptum, niður í 8,03 krónur þegar þetta er skrifað og TM í 1,19% lækkun, í 31 milljóna króna viðskiptum.

Heimavellir hafa hækkað mest, eða um 2,54%, í þó ekki nema 5 milljóna króna viðskiptum og er gengið 1,21 króna. Hins vegar hafa langmestu viðskiptin verið með bréf í Arion banka eða fyrir rúmlega 1,1 milljarð króna. Nemur hækkunin 0,40%, í 75,60 krónur.