*

sunnudagur, 25. júlí 2021
Innlent 21. júlí 2021 16:25

Icelandair lækkar um 4%

Hlutabréf Icelandair og Play hafa nú lækkað um 14%-15% frá byrjun síðustu viku.

Ritstjórn

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,6% í 3,6 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Nasdaq í dag. Icelandair lækkaði um 4% í 86 milljóna króna veltu. Flugfélagið hefur nú lækkað um 15% frá byrjun síðustu viku. Play hefur á sama tímabili lækkað um tæp 14% en gengi félagsins stóð í stað í dag.

Meirihluti félaga Kauphallarinnar hækkaði þó í viðskiptum dagsins. Iceland Seafood bar af í 2,1% hækkun, þó einungis 13 milljóna veltu. Síldarvinnslan hækkaði næst mest eða um 1,3% en sjávarútvegsfyrirtækið tilkynnti í gær um sölu hjá dótturfélögum á tveimur skipum.

Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem hækkuðu um 0,3% og standa nú í 161 krónu á hlut. Íslandsbanki hækkaði einnig um tæplega eitt prósent og Kvika um 0,4%.

Hlutabréfaverð fasteignafélagsins Kaldalóns, sem er skráð á First North markaðinn, hækkaði um 1,2% í dag og hefur nú hækkað um 30% á einum mánuði.