Boeing 767 flugvél Icelandair lenti um hádegisbilið í dag að íslenskum tíma á Suðurskautslandinu eftir tæplega sex klukkustunda flug frá Höfðaborg í Suður-Afríku. Verið er að sækja 30 norskra vísindamenn sem verið hafa að störfum á Troll rannsóknarstöðinni.

Á heimleiðinni mun flugvélin halda til baka til Höfðaborgar og þaðan til Oslóar en enda að lokum í Keflavík á ný.

Verkefnið er leiguflug á vegum Loftleiða, dótturfélags Icelandair. Starfsliðið Icelandair telur alls um tuttugu manns. Flugfélagið fór í sambærilegt verkefni árið 2015. Flugferðin hófst á miðvikudaginn þegar flogið var samfleytt í fjórtán klukkustundir frá Keflavík til Höfðaborgar.

„Þetta er óvenjulegt vegna þess að flugbrautin er gerð á ís. Við höfum þurft að sæta lagi, þetta eru svona veðurgluggar sem við þurfum að nýta okkur eins og fólk þekkir frá Everest. Helsta ógnin er snjóblinda, þ.e.a.s. skerpa  á milli himins og jarðar er hvort tveggja hvítt en aðstæður í dag eru bara mjög góðar,“ segir Linda Gunnarsdóttir er yfirflugstjóri hjá Icelandair, við RÚV um flugferðina.