Icelandair hefur ákveðið að loka þremur af tíu erlendum söluskrifstofum. Félagið sameinar starfsemi söluskrifstofa á Norðurlöndunum í Kaupmannahöfn og lokar þar með svæðisskrifstofunum í Osló, Stokkhólmi og Helsinki. Þetta kemur fram í frétt Túrista.

Haft er eftir Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair, að sex starfsmönnum Icelandair hafi verið sagt upp vegna þessara breytinga og nú muni sölustjórar félagsins í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi vinna heiman frá sér og fá stuðning frá söluskrifstofunni í Kaupmannahöfn og höfuðstöðvum félagsins á Íslandi.

Einnig bendir Guðjón á að mesti vöxturinn í vægi lykilmarkaða Icelandair hafi átt sér stað í Norður-Ameríka. Samkvæmt uppgjöri Icelandair fyrir fyrsta fjórðung þessa árs stendur flugið til Norður-Ameríku undir um 56% af sætaframboði félagsins og hefur hlutfallið farið hækkandi síðastliðin ár.