Icelandair hefur gert samning við Aviation Capital Group (ACG) um fjármögnun þriggja Boeing 737 MAX flugvéla. Um er að ræða sölu og endurleigu á tveimur Boeing 737 MAX8 flugvélum og fjármögnunarleigu á einni Boeing 737 MAX9 vél. Þetta kom fram í tilkynningu sem félagið sendi í kauphöll nú í morgun.

Gert er ráð fyrir að flugvélarnar verði afhentar í desember 2021 og janúar 2022. Icelandair hafði áður gert samning um fjármögnun til vara á þessum þremur vélum sem nú er ljóst að verður ekki nýtt. Í kjölfar þessa samnings hefur Icelandair lokið fjármögnun allra tólf Boeing 737 MAX flugvéla félagsins sem félagið pantaði upphaflega frá Boeing á árinu 2013.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í lok júlí að til skoðunar væri að bæta við tveimur MAX vélum til viðbótar við núverandi tólf vélar. Eldsneytisnotkun og flugdrægni vélanna hafi reynst meiri en flugfélagið átti von á.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group:

„Við erum ánægð með að hafa náð samningum á góðum kjörum við Aviation Capital Group sem við höfum átt í samstarfi við lengi. Það er ljóst að fjármögnunaraðilar hafa trú á félaginu sem og virði Boeing 737 MAX vélanna og þeim tækifærum sem þær koma til með að skapa.“