*

þriðjudagur, 25. júní 2019
Innlent 4. apríl 2019 07:31

Icelandair með 85% Ameríkuflugs

Icelandair verður að óbreyttu með 85% sætaframboðs til Norður-Ameríku og nærri tvo þriðju Evrópuflugs í sumar.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Að óbreyttu verður Icelandair með 85% markaðshlutdeild á flugleiðum til Norður-Ameríku í sumar og nærri tvær af hverjum þremur flugferðum til Evrópu frá Keflavíkurflugvelli ef marka má sumaráætlun Isavia sem nær frá apríl og út október. Þá stefnir í 40% samdrátt á sætaframboði til og frá Norður- Ameríku í sumar og 20% samdrátt til meginlands Evrópu og þriðjungssamdrátt á flugferðum til Bretlands. Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar, segir að upp á ferðasumarið 2019 muni mestu skipta hvernig flugfélög sem þegar fljúga á Keflavíkurflugvöll bregðist við falli Wow air. Transavia og Wizz air hafa þegar tilkynnt að þau muni bætast í Íslandsflug. Mestu skipta hins vegar viðbrögð Icelandair.

Fjárfesting styrki stöðu Icelandair

Icelandair gerði leigusamning á tveimur Boeing 767 breiðþotum á mánudag og vinnur að því að fá þriðju breiðþotuna. Þá var greint frá því í gær að bandaríski fjárfestingasjóðurinn PAR Capital Management hefði keypt 11,5% hlut í Icelandair. Gefið verður út nýtt hlutafé fyrir ríflega 5 milljarða króna sem „mun styrkja fjárhagsstöðu félagsins enn frekar og gera því betur kleift að nýta þau vaxtartækifæri sem núverandi aðstæður á flugmarkaði kunna að fela í sér,“ eins og það var orðað í tilkynningu frá Icelandair. Félagið er í þröngri stöðu þar sem níu Boeing 737 Max flugvélar félagsins voru kyrrsettar í mars. Max vélarnar slaga vel upp í flugflota Wow air sem taldi ellefu flugvélar undir það síðasta. Boeing gaf út í vikunni að félaginu myndi ekki takast að ljúka uppfærslu á hugbúnaði flugvélanna í vikunni eins og stefnt hafði verið að. Gert er ráð fyrir að uppfærslan taki nokkrar vikur til viðbótar og að því loknu munu flugmálayfirvöld þurfa að leggja blessun sína yfir breytingarnar.

Nánar er fjallað um flugáætlanir sumarsins, fall Wow air og stöðu ferðaþjónustunnar í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.


Stikkorð: Icelandair Isavia Boeing 737 Max
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is