Icelandair Group hefur gert hagstæðari samninga en WOW air við færsluhirða. Færsluhirðar eru fyrirtæki sem miðla greiðslum á milli korthafa og söluaðila. Einn helsti munurinn á samningunum er sá að Icelandair fær greitt mjög fljótt fyrir selda þjónustu, en WOW air fær greitt þegar þjónustan er veitt, gjarnan mánuðum síðar.

„Félagið fær ekki greitt frá færsluhirði fyrr en flugið hefur verið flogið,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air.

WOW air fær þannig ekki greitt fyrir flug sem er flogið til Boston í júlí fyrr en ferðin er farin, þó að miðinn kunni að vera keyptur í gegnum vefsíðu félagsins í janúar. Fyrirkomulagið gerir það að verkum að sjóðstreymi WOW air er mjög háð því hvenær flest flug eru flogin. „WOW air þarf að fyrirframgreiða mest allan sinn kostnað,“ segir Svanhvít.

Félagið er í viðskiptum við Valitoren samkvæmt upplýsingum frá kreditkortafyrirtækinu er það meginregla í samningum þess við viðskiptavini sína að fjármunir sem séu greiddir með kreditkorti fari ekki inn á reikning söluaðila fyrr en þjónustan sem um ræðir sé veitt.

Icelandair fær greitt strax

Í tilfelli Icelandair er málum öðruvísi farið. „Bankar, eða þeir sem eru í þessum bransa og bakka upp færsluhirðingarfyrirtækin, meta viðskiptavini út frá því hversu mikil áhætta er fólgin í viðskiptunum. Við fáum greitt fljótlega eftir að viðskiptavinurinn borgar, eitthvað mismunandi eftir löndum,“ segir Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri Icelandair Group. Með öðrum orðum þarf Icelandair ekki að bíða nema í skamman tíma eftir greiðslu þegar miðar eru keyptir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .