*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 14. október 2019 15:41

Icelandair með í þróun rafflugvéla

Icelandair tekur þátt í að þróa rafflugvél með fimm öðrum flugfélögum á Norðurlöndunum.

Ritstjórn
Sænska fyrirtækið Heart Aerospace ætlar að koma rafflugvél í loftið árið 2025.

 Sænska fyrirtækið Heart Aerospace stefnir á að rafflugvélin sín taki á loft árið 2025 en félagið hefur lokið fjármögnun fyrir þróun vélarinnar. Icelandair er eitt af fimm norrænum flugfélögum sem tekur þátt í verkefninu, að því er kemur fram í frétt á vefnum turisti.is, en þar að auki koma flugmálayfirvöld í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi að verkefninu. 

„Tæknin sem byggt er á kemur frá sænska fyrirtækinu Heart Aerospace en yfirlýst markmið forsvarsfólks þess er að koma rafflugvél í loftið árið 2025. Sú á að geta flogið allt að fjögur hundruð kílómetra með nítján farþega. Gangi það eftir gæti flugvélin drifið milli helstu innanlandsflugvallanna hér á landi en þó kannski tæplega milli Reykjavíkur og Egilsstaða en sú flugleið er um 380 kílómetrar.

Þetta norræna samstarfsverkefni nær þó ekki aðeins til flugvélarinnar sjálfrar því ætlunin er jafnframt að undirbúa staðal sem nær til allra innviða sem rafknúnar flugsamgöngur krefjast samkvæmt því sem segir á vef Rise, sænsku nýsköpunarmiðstöðvarinnar. Þar segir einnig að með tilkomu rafmagnsflugvéla gefist tækifæri á að efla flugsamgöngur milli minni staða og umferðin milli Norðurlanda takmarkist þá ekki nær eingöngu við flugferðir milli norræna höfuðborga,“ segir m.a. í frétt á vefnum turisti.is. 

Stikkorð: Icelandair rafflugvél