Flugfélagið Icelandair leggst gegn þingsályktunartillögu um seinkun klukkunnar sem nú er til meðferðar á Alþingi. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Þar kemur fram að fyrirtækið telji að breytingin muni koma til með að hafa slæm áhrif á starfsumhverfi fyrirtækisins og er fullyrðingum um að seinkun muni ekki hafa slæm áhrif á viðskipti mótmælt.

Í umsögn fyrirtækisins um þingsályktunartillöguna segir að seinkunin muni bæði hafa áhrif á samninga sem fyrirtækið hefur gert um tiltekna afgreiðslutíma auk þess sem kjarasamningar miðist við brottfarartíma á tilteknu tímabili á Keflavíkurflugvelli.

„Nái þingsályktunartillagan fram að ganga munu afgreiðslutímarnir hér á landi líklega færast fram um eina klukkustund og þar með gerbreyta þeim flugáætlunum sem rekstur félagsins hefur snúist um undanfarna áratugi. Þetta mun jafnframt leiða til aukins áhafnakostnaðar félagsins vegna skuldbindinga í kjarasamningum. Muni afgreiðslutímarnir ekki færast fram um eina klukkustund gæti Icelandair misst rétt sem félagið hefur öðlast á sambærilegum afgreiðslutímum á erlendum flugvöllum,“ segir meðal annars í umsögn fyrirtækisins.