Icelandair hefur ákveðið að hefja heilsársflug til bandarísku borgarinnar Cleveland á næsta ári.Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair. Borgin er nítjándi áfangastaðurinn í Norður-Ameríku sem Icelandair býður upp á í leiðakerfi sínu. Flugið til Cleveland hefst í maí 2018 og flogið verður fjórum sinnum í viku. Sala farseðla mun hefst í september.

Cleveland í Ohio stendur við eitt af stóru vötnunum svokölluðu í Bandaríkjunum, Lake Erie, og er þekkt iðnaðarborg með um 2,2 milljónir íbúa. Borgin er einnig kunn fyrir kraftmikið lista- og íþróttalíf, en þar er meðal annars hið þekkta safn Rock and Roll Hall of Fame Museum. Körfuboltalið borgarinnar, Cavaliers, þekkja flestir áhugamenn um körfuknattleik, en með því leikur ein skærasta stjarna NBA, Lebron James að því er kemur fram í tilkynningunni.

„Cleveland er áfangastaður sem fellur vel að leiðakerfi okkar og þéttir og styrkir tengiflugið til og frá Evrópu“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. Með Cleveland fjölgar áfangastöðum Icelandair í 48 í heild.