Gengi bréfa Marel hækkaði mest í kauphöllinni í dag, eða um 1,57%, upp í 680,50 krónur, í næstmestu viðskiptunum með hlutabréf í dag, eða fyrir 108 milljónir króna. Hins vegar lækkaði gengi bréfa Icelandair langmest, eða um 7,21%, niður í 1,03 krónur, eða rétt yfir útboðsgenginu í síðustu viku, en viðskiptin námu 16 milljónum króna.

Heildarviðskipti á hlutabréfamarkaði í dag voru tiltölulega lítil, eða fyrir 910 milljónir króna, og hækkaði úrvalsvísitalan um 1,09%, upp í 2.091,41 stig í viðskiptunum. Næst mest hækkun var á gengi bréfa Eikar, eða um 1,56%, í 47 milljóna króna viðskiptum og fór gengi bréfa fasteignafélagsins upp í 7,15 krónur.

Þriðja mesta hækkunin var svo á bréfum Arion banka, eða um 1,01%, upp í 74,85 krónur, en viðskiptin með bréf í bankanum voru fyrir hæstu upphæðina með bréf í kauphöllinni í dag, eða fyrir 129 milljónir króna. Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf Skeljungs, eða fyrir 104,3 milljónir króna, en bréf félagsins hækkuðu um 0,65%, upp í 7,80 krónur.

Eimskip lækkað um 5% frá fimmtudegi

Einungis tvö önnur félög en Icelandair lækkuðu í virði í kauphöllinni í dag, það er annars vegar Origo sem lækkaði um 0,35%, niður í 28,50 krónur í 39 milljóna króna viðskiptum.

Hins vegar héldu bréf Eimskipafélagsins áfram að lækka, eða um 0,19%, í þó ekki nema 14 milljóna króna viðskiptum, og eru þau nú komin í 131 krónu. Lokagengi bréfa félagsins þriðjudag til fimmtudags í síðustu viku var 138 krónur, en eftir að félagið lenti í kastljósi sjónvarpsþáttarins Kveiks á fimmtudagskvöld hefur gengi bréfa þess lækkað um 5,07%.

Flestar viðskiptamyntir styrktust gagnvart krónu

Íslenska krónan styrktist gagnvart tveim af helstu viðskiptamyntum sínum, Bandaríkjadal og japanska jensins, en veiktist gagnvart öðrum. Þannig veiktist bæði dalurinn og jenið um 0,03% gagnvart krónunni, og fæst nú dalurinn á 138,71 krónur og jenið á 1,3133 krónur.

Evran styrktist um 0,25%, og fæst nú á 161,66 krónu, breska pundið styrktist um 1,16%, upp í 178,34 krónur, meðan svissneski frankinn hækkaði 0,34%, upp í 149,82 krónur. Norska krónan styrktist um 1,10%, upp í 14,616 krónur, sænska krónan hækkaði um 0,77%, upp í 15,296 krónur, og danska krónan hækkaði um 0,27%, upp í 21,716 krónur.