Veiking krónunnar hefur þau áhrif að mjög hagstætt er fyrir útlendinga að koma til Íslands. Icelandair hóf fyrr í vikunni að auglýsa hagstæðar aðstæður fyrir ferðamenn á Íslandi. „Fyrstu viðbrögð eru jákvæð,“ segir Birkir Hólm Guðnason framkvæmdastjóri Icelandair. „Vegna aðstæðna á Íslandi höfum við sett aukið fjármagn í erlend markaðssvæði til að laða ferðamenn að Íslandi.“

Erlendir fréttamiðlar hafa á síðustu dögum birt fréttir þess efnis að Ísland sé einn hagstæðasti kosturinn fyrir ferðamenn. CNN birti til dæmis frétt um hagstæð innkaup á Íslandi og að „nú væri Ísland komið aftur á kortið“.

Birkir segir að aðgerðir sem Icelandair fór í í vor til að mæta fyrirsjáanlegum breytingum í efnahagslífinu komi sér vel nú þótt það sé engin trygging við þær aðstæður sem hafa skapast á síðustu vikum. „Við höfum byggt upp öflugt net, ekki bara áfangastaða, heldur erum við í góðu sambandi við ferðaskrifstofur um allan heim. Við höfum fengið jákvæð viðbrögð frá þessum vinum okkar síðustu daga og fundið fyrir miklum áhuga,“ segir Birkir.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair.