Samkeppniseftirlitið beindi því í dag til innanríkisráðherra og Samgöngustofu að grípa til aðgerða vegna samkeppnishindrana sem tengjast úthlutun afgreiðslutíma fyrir flugfélög á Keflavíkurflugvelli.

Málið tengist kvörtun WOW air sem barst til Samkeppniseftirlitsins á síðasta ári. WOW air kvartaði yfir því að Icelandair hafi notið samkeppnisforskots í fólst í forgangi á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli. Samkeppniseftirlitið segir að afgreiðslutímar á milli 7:00 og 8:00 og milli 16:00 og17:00 séu sérstaklega mikilvægir fyrir flugfélög sem vilja koma á samkeppni í tengiflugi milli Evrópu og Norður-Ameríku.

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiddi það í ljós að Icelandair hafði ekki einungis hlotið forgang á afgreiðslutímum sem félagið hafði fengið úthlutað áður heldur einnig á úthlutun nýrra afgreiðslutíma. Að mati Samkeppniseftirlitsins felur þetta fyrirkomulag við úthlutun afgreiðslutíma í sér samkeppnishindranir.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir í tilkynningu um málið:

„Samkeppni í áætlunarflugi til og frá landinu hefur mikla þýðingu fyrir almenning og atvinnustarfsemi, ekki síst ferðaþjónustu. Þar sem samkeppni hefur komist á höfum við notið þess í lægri flugfargjöldum. Keflavíkurflugvöllur er eina gátt okkar til og frá landinu. Stjórnvöldum ber því skylda að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að allir keppinautar sitji þar við sama borð.“

Samkeppniseftirlitið beinir því til innanríkisráðuneytisins og Samgöngustofu að ráðast í aðgerðir þar sem hagsmunum almennings af virkri samkeppni á áætlunarflugi sé gefinn forgangur.