Mestu viðskiptin voru með bréf Haga, Arion og Icelandair í kauphöllinni í dag, en það síðastnefnda lækkaði mest í 185,1 milljóna króna viðskiptum dagsins, eða um 5,06%, niður í 1,50 krónu.

Heildarviðskiptin á hlutabréfamarkaði kauphallarinnar í dag námu 1,6 milljörðum króna, en viðskiptin með bréf félaganna þriggja voru ríflega helmingur þeirra eða fyrir 881,7 milljónir króna. Úrvalsvísitalan lækkaði í þeim um 0,10%, niður í 2.630,29 krónur.

Bréf Arion hækkuðu hins vegar næst mest, eða um 0,63%, í 300,2 milljóna króna viðskiptum og nam lokagengi bréfanna 96 krónum. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær seldi vogunarsjóðurinn Sculptor Capital Management fyrir um 4 milljarða króna í bankanum á miðvikudag.

Eina félagið sem hækkaði meira í virði en Arion var Brim, eina sjávarútvegsfyrirtækið í kauphöllinni nú, sem hækkaði um 0,96%, upp í 52,70 krónur, í þó ekki nema hálfrar milljóna króna viðskiptum.

Merkilegt nokk voru þetta þó ekki minnstu viðskiptin í kauphöllinni með bréf í einu félagi í dag, heldur voru það 416 þúsund króna viðskipti með bréf Eimskipafélags Íslands sem lækkuðu þau um 0,96%, niður í 258,50 krónur. Þrátt fyrir það er hækkun bréfa Eimskipa mest síðustu þrjá mánuðina eða 73,49%.

Hagar í tæplega 400 milljóna viðskiptum

Mestu viðskiptin í viðskiptum dagsins voru hins vegar með bréf Haga, eða fyrir 396,4 milljónir króna, en lækkun bréfa fyrirtækisins um 2,34%, var sú næst mesta með bréf í einu félagi.

Viðskiptablaðið greindi í gær frá tæplega 30% lækkun hagnaðar félagsins á bæði þriðja ársfjórðungi rekstar félagsins sem og á fyrstu níu mánuðum þess sem byrjaði einmitt 1. mars, rétt um það bil þegar kórónuveirufaraldurinn nam land hér á landi.

Þriðja mesta lækkunin var svo með bréf VÍS, eða um 1,25%, niður í 14,22 krónur, í 91 milljóna króna viðskiptum. Annað tryggingafélag, Sjóvá var svo með þriðju mestu hækkunina, eða 0,16%, upp í 30,90 krónur, í 20 milljóna króna viðskiptum.

Evran stóð í stað í 156 krónum

Gengi krónunnar og evru stóð í stað í dag í 156,08 krónum hver evra, en danska krónan, sem alla jafna fylgir evrunni að, styrktist um 0,01% gagnvart krónu og fæst nú á 20,984 krónur.

Breska pundið, sænska og norska krónan veiktust allar gagnvart íslensku krónunni, pundið um 0,15%, niður í 175,53 krónur, sú sænska um 0,45%, niður í 15,382 krónur og sú norska um 0,71%, niður í 15,063 krónur.

Aðrar helstu viðskiptamyntir íslensku krónunnar styrktust hins vegar gagnvart henni, þar af Bandaríkjadalur mest, eða um 0,50%, upp í 129,15 krónur. Næst mest var styrking japanska jensins, eða um 0,43%, upp í 1,2442 krónur og loks styrktist svissneski frankinn um 0,23%, upp í 145,17 krónur.