Icelandair og bandaríska flugfélagið JetBlue hafa aukið enn frekar samstarf sitt um tengingar á milli leiðakerfa félaganna í Evrópu og Norður-Ameríku. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Félögin hafa boðið upp á sammerkt flug milli Íslands og Bandaríkjanna, til New York, Newark og Boston og þaðan áfram til fjölmargra áfangastaða JetBlue. Í byrjun nóvember var áfangastöðum í Evrópu bætt við í sammerkt flug frá Bandaíkjunum, þ.e. Amsterdam, Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, Helsinki, Osló, Glasgow og Manchester. Enn fleiri áfangastaðir hafa bæst við og eru þeir eftirfarandi:

  • Frankfurt
  • Munchen
  • Berlín
  • Hamborg
  • París
  • London Heathrow og Gatwick
  • Dublin
  • Bergen

Samstarf flugfélaganna hófst árið 2011, en Icelandair á nú þegar í samstarfi við fjölda flugfélaga og geta þannig boðið upp á tengiflug til fjölmargra áfangastaða þar sem öll ferðin er keypt á einum miða og farþegar innrita farangur alla leið á áfangastað. Farþegar Icelandair hafa haft aðgang að tengiflugi til fjölda áfangastaða í leiðakerfi JetBlue. Meginbreytingin núna felst í því að viðskiptavinir JetBlue fá aðgang að fleiri ferðamöguleikum til áfangastaða Icelandair í Evrópu um Ísland.