Icelandair og Jetblue tilkynntu í dag að félögin hafa lagt inn umsókn til bandaríska samgönguráðuneytisins (DOT) og flugmálastofnunarinnar (FAA) um að hefja samkennt flug (codeshare) á ákveðnum flugleiðum beggja flugfélaga. Samningur um samstarf félaganna var undirritaður á Icelandair Mid-Atlantic kaupstefnunni í Laugardalshöll í dag.

Samningnum er ætlað að auka þægindi viðskiptavina beggja félaga og einfaldar tengingar milli fluga. Sala samkenndu fluganna hefst þegar viðeigandi stofnanir hafa gefið út leyfi sín.

“Með samningnum eru við að styrkja leiðakerfi okkar, ná til fleiri viðskiptavina og gefa þeim aukna valmöguleika”, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. “Við höfum átt mjög farsælt samstarf við JetBlue í nokkur ár og höfum nú ákveðið að styrkja það enn frekar með hagsmuni beggja í huga”, segir hann.

“Við erum stöðugt að leita leiða til þess að vaxa og þróa samstarf við bestu flugfélög heims. Icelandair er frábær samstarfsaðili með spennandi og vaxandi leiðakerfi milli Norður-Ameríku, Íslands og Evrópu og gefur viðskiptavinum okkar ný tækifæri”, segir Robin Hayes, forstjóri JetBlue.

Samningurinn felur í sér að flug JetBlue frá Boston og New York frá/til eftirtalinna borga verða samkennd Icelandair - verða „FI“flug:

• Austin, Texas (AUS)
• Baltimore, Maryland (BWI)
• Chicago, Illinois (ORD)
• Detroit, Michigan (DTW)
• Fort Lauderdale-Hollywood, Florida (FLL)
• Los Angeles (LAX)
• Orlando, Florida (MCO)
• Newark, New Jersey (EWR)
• Philadelphia, Pennsylvania (PHL)
• Pittsburgh, Pennsylvania (PIT)
• Raleigh-Durham, North Carolina (RDU)
• San Francisco, California (SFO)
• Tampa, Florida (TPA)
• Washington D.C. (DCA and IAD)

Þá munu flug Icelandair frá/til Keflavíkur frá Boston og New York, og áfram frá/til eftirtalinna borga verða jafnframt á vegum JetBlue og merkt með tákni þeirra „B6“.

• Amsterdam (AMS)
• Anchorage, Alaska (ANC)
• Birmingham (BHX)
• Boston, Massachusetts (BOS)
• Kaupmannahöfn (CPH)
• Denver, Colorado (DEN)
• Glasgow (GLA)
• Helsinki (HEL)
• Manchester (MAN)
• Minneapolis, Minnesota (MSP)
• Newark, New Jersey (EWR)
• New York City, New York (JFK)
• Orlando, Florida (MCO, later 2015)
• Osló (OSL)
• Seattle, Washington (SEA)
• Stokkhólmur (ARN)
• Washington DC. (IAD)

JetBlue flýgur að meðaltali 825 flug daglega og flytur rúmlega 30 milljón farþega árlega til 87 borga í Bandaríkjunum, Karabíska hafinu og Mið-Ameríku.