Viðamiklar lækkanir herjuðu á kauphöll Nasdaq á Íslandi í byrjun vikunnar. Til marks um það lækkaði gengi allra félaga sem skráð eru á Aðalmarkað á mánudag og á þriðjudag héldu lækkanir áfram að herja á bróðurpart félaganna.

Á miðvikudag fór þó að birta til í höllinni er gengi nær allra félaga á Aðalmarkaði hækkaði og OMXI10 úrvalsvísitalan hækkaði um tæplega 2%. Í gær urðu svo litlar hreyfingar á gengi félaganna á Aðalmarkaði, að flugfélaginu Icelandair undanskildu en gengi félagsins hækkaði um 3,54% og stóð í kjölfarið í 2,05 krónum á hlut. Hefur gengi félagsins ekki verið hærra frá því sumarið 2020.

OMXI10 vísitalan hefur lækkað um ríflega 4% innan ársins 2022. Hefur þróun íslenska markaðarins haldist í hendur við þróun á helstu erlendu hlutabréfamörkuðum þar sem vikan hófst einnig á talsverðum gengislækkunum.

Gengi hlutabréfa Icelandair og Skeljungs hefur verið á miklu flugi á þessu ári, en gengi Icelandair hefur hækkað um nærri 13% innan árs og Skeljungs um ríflega 9%. Aftur á móti hefur gengi Kviku og Origo lækkað mest allra félaga á Aðalmarkaði innan árs. Hefur gengi Origo lækkað um tæplega 10% og Kviku um rúmlega 10%.