Hagfræðideild Landsbankans telur að lífskjör og efnahagslegur stöðugleiki í landinu séu orðin að miklu leyti samtvinnuð velgengni stóru íslensku flugfélaganna tveggja, Icelandair og Wow air. Truflanir á starfsemi Icelandair og Wow air gæti haft miklar afleiðingar fyrir íslenska ferðaþjónustu og efnahagslegan stöðugleika í landinu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýju tímariti hagfræðideildar Landsbankans um stöðu ferðaþjónustunnar á Íslandi og horfurnar í greininni.

Bent er á að langmikilvægasti þátturinn í uppgangur ferðaþjónustunnar hér á landi sé stóraukið framboð af flugferðum hingað til lands. Ástæðan er sú að fjöldi ferðamanna – og þar með umfang ferðaþjónustunnar – ræðst að mjög miklu leyti af því framboði. Alls fljúga þrjátíu flugfélög til Íslands á þessu ári, og þótt fjölmörg flugfélög séu um hituna eru íslensku flugfélögin Icelandair og Wow air með langmestu markaðshlutdeildina. Frá janúar til október voru félögin með tæplega 82% af sætaframboði í flugi til og frá landinu. Hlutdeildin í Ameríkufluginu er enn meiri eða yfir 90%.

„Í ljósi mikilvægis alþjóðaflugsins fyrir ferðaþjónustuna, og mikilvægis ferðaþjónustunnar fyrir hagkerfið, er ljóst að Ísland á mikið undir traustri stöðu stóru íslensku flugfélaganna tveggja,“ segir í greiningu bankans. Því er varpað fram hvort Icelandair og Wow air séu þá orðin kerfislega mikilvæg fyrirtæki fyrir efnahagslegan stöðugleika, í svipuðum skilningi og stóru viðskiptabankarnir þrír eru skilgreindir kerfislega mikilvægir fyrir fjármálastöðugleika í landinu. Samkvæmt greiningu Landsbankans myndu verulegar truflanir á starfsemi þessara flugfélaga hafa gríðarlega miklar afleiðingar fyrir íslenska ferðaþjónustu og hagkerfið í heild.

„Slíkt áfall hefði keðjuverkandi áhrif, m.a. á gengi krónunnar, eignaverð, vexti og verðbólgu. Ef flugfélögin eru talin kerfislega mikilvæg vakna spurningar um viðbúnað stjórnvalda og aðkomu þeirra að ferðaþjónustunni. Þarf til dæmis að útbúa viðbragðsáætlanir sem hægt er að grípa til ef flugfélögin lenda í vanda?“ segir í greiningu Landsbankans.

Þar sem ferðaþjónustan er orð­in ráðandi þáttur í íslensku efnahagslífi er ljóst að allar breytingar á greininni hafa mikil áhrif á kaupmátt íslenskra heimila. Erfitt er að spá fyrir um þróun ferðaþjónustunnar, en vísbendingar eru um að eftirspurn eftir Íslandi sem áfangastað sé að vaxa hægar en áður, að mati hagfræðideildarinnar. Lykilóvissu­ þáttur í þeirri þróun er þó framboð á flugi til og frá Íslandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .