Ferðaskrifstofan Discover the World mun fljúga einu sinni í viku frá Lundúnum til Egilsstaða allt næsta sumar og fram til 2. október, en í febrúar og mars 2017 verða ferðirnar tvær í hverri viku.

Clive Stacey, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar, segir í samtali við Túrista að fyrirtækið hafi óskað eftir samstarfi við bæði Icelandair og Wow air um flugið en ekkert hafi hins vegar komið út úr því. „Við erum því að gera þetta sjálf þar sem enginn annar hefur áhuga,“ segir hann.

Þetta verður í fyrsta sinn sem Discover the World býður upp á flugferðir hingað til lands í sögu fyrirtækisins. Stacey segir við Túrista að áformin um flugið verði ekki að veruleika nema opinberar stofnanir, fyrirtæki og ferðaþjónustan á Austurlandi styðji við það. Tekur hann hins vegar fram að verkefnið hafi hlotið góðar undirtektir hjá íbúum og stofnunum fyrir austan.