Icelandair opnaði í gær nýjan flughermi á Völlunum í Hafnarfirði. Um er að ræða Boeing 757-200 „Level D“ hermi sem er rekinn í samstarfi við bandaríska félagið Opinicus.

Hermirinn mun nýtast við þjálfun fyrir starfsmenn félagsins. Hingað til hafa flugmenn Icelandair, sem þurfa að hljóta endurþjálfun á sex mánaða fresti, þurft að sækja slíka þjálfun til Kaupmannahafnar eða London.

„Hinn mikli vöxtur sem verið hefur í starfseminni að undanförnu með fjölgun flugvéla og flugmanna gerir það að verkum að þessi samningur eykur hagkvæmni og sparnað í okkar rekstri. Jafnframt er um að ræða nýjasta og fullkomnasta tækjabúnað sem völ er á sem bætir þjálfun áhafna og styrkir hana til framtíðar. Það er einnig ánægjulegt fyrir Icelandair að fá þjálfunina inn í landið, það treystir undirstöður atvinnugreinarinnar og eykur almenna þekkingu og reynslu hér á landi,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, í tilkynningu.