Öfugt við það sem lággjaldaflugfélög bjóða geta farþegar með Economy Light valkosti Icelandair valið sér sæti í flugvélinni. Það val nær þó ekki til sæta með auknu fótarými að því er Túristi greinir frá, en slík sæti henta stóru fólki sérstaklega.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá á sínum tíma er valkosturinn ætlaður sem ódýr lausn fyrir þá sem hyggjast fara í styttri ferðir þar sem ekki þarf annað en handfarangur, ekki ólíkt því sem lággjaldaflugfélögin bjóða upp á.

Icelandair hefur nú byrjað að rukka Economy Light farþega um milli 2 og 3 þúsund krónur fyrir aukið fótapláss ef flogið er innan Evrópu, en frá 4.500 til 6.500 krónur ef flogið er til Norður Ameríku.

Í Evrópuflugi Wow air, þarf hins vegar að greiða frá 1.999 til 2.999 en til vesturheims rukkar flugfélagið 3.999 til 5.999 krónur fyrir hið aukna fótapláss. Hins vegar þurfa farþegar Wow einnig að greiða aukagjald ef þeir vilja tryggja sér ákveðinn stað í flugvélinni almennt.