*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 23. mars 2020 09:32

Icelandair segir upp 240

Starfshlutfall 92% starfsfólks Icelandair verður lækkað frá deginum í dag.

Jóhann Óli Eiðsson
Laun forstjórans Boga Nils Bogasonar lækka um 30% við breytinguna.
Eva Björk Ægisdóttir

92% starfsfólks Icelandair hefur verið sett í skert starfshlutall frá deginum í dag og um 240 verður sagt upp störfum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.

Ástæðan er augljóslega sá veirufaraldur sem geisar nú um veröldina og hefur sett flugsamgöngur og ferðalög úr skorðum. Tekjur félagsins hafa lækkað stórkostlega vegna þessa en launakostnaður staðið í stað. Gripið er til aðgerðanna til að draga úr þeim kostnaði en í tilkynningunni segir að ekki hefði verið unnt að grípa til téðrar aðgerðar ef ekki hefði komið til aðgerða hjá hinu opinbera. 

„Icelandair hefur á liðnum vikum nýtt sér þann sveigjanleika sem felst í leiðakerfi félagsins og aðlagað þannig framboð að eftirspurn sem jafnt og þétt hefur farið minnkandi í kjölfar ferðatakmarkana víðs vegar um heim. Félagið hefur jafnframt breytt áætlun til að koma viðskiptavinum til síns heima innan þess ramma sem ferðatakmarkanir hafa leyft. Í dag flýgur félagið um 14% af upphaflegri flugáætlun og gert er ráð fyrir enn meiri samdrætti á komandi vikum,“ segir í tilkynningunni.

Þeir starfsmenn sem verða áfram í fullu starfi lækka um 20% í launum. Framkvæmdastjórar lækka um 25% og laun forstjóra og stjórnar lækka um 30% segir enn fremur í tilkynningunni.

„Þetta eru sögulegir tímar þar sem heimsfaraldur geisar sem hefur haft gríðarleg áhrif á flug og ferðalög. Mikilvægasta verkefnið núna er að tryggja rekstrargrundvöll Icelandair Group til framtíðar. Þær aðgerðir sem við kynntum fyrir starfsfólki okkar í dag eru sársaukafullar en nauðsynlegar til að takmarka áhrif þeirra aðstæðna sem uppi eru á rekstur og sjóðstreymi félagins. Félagið hefur staðist ýmis áföll í gegnum tíðina, hvort sem það hefur verið barátta við náttúruöflin, efnahagslægðir eða aðra utanaðkomandi þætti. Við höfum komist í gegnum þau öll með samstöðu og útsjónarsemi, en fyrst og fremst með þeim einstaka baráttuanda og krafti sem ávallt hefur einkennt starfsfólk félagsins. Það hefur svo sannarlega sýnt sig undanfarna daga og vikur. Ég er stoltur og þakklátur að tilheyra þeirri öflugu liðsheild sem starfsfólk Icelandair Group myndar og er sannfærður um að við komumst í gegnum þessar krefjandi aðstæður,“ er haft eftir forstjóranum Boga Nils Bogasyni.

Stikkorð: Icelandair