Icelandair hefur sagt upp 88 starfsmönnum frá og með 1. október nk. Stærstur hluti þess hóps eru flugmenn eða 68 einstaklingar en þar að auki er um að ræða 20 starfsmenn af ýmsum sviðum fyrirtækisins. Ennfremur ljúka nokkrir tugir starfsmanna sem voru á tímabundnum ráðningarsamningum störfum nú um mánaðamótin.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu, en í henni segir að töluverður samdráttur hafi verið í flugi vegna hertra ferðatakmarkana á landamærum hér á landi sem tóku gildi seinnipartinn í ágúst. Til að bregðast við þessari stöðu og áframhaldandi óvissu hafi félagið neyðst til að grípa til þessara uppsagna.

„Ljóst er að félagið stendur frammi fyrir áframhaldandi óvissu vegna kórónuveirufaraldursins. Í kjölfar vel heppnaðs hlutafjárútboðs er félagið hins vegar vel í stakk búið til að komast í gegnum þá óvissu sem framundan er og jafnframt bregðast hratt við um leið og aðstæður leyfa. Félagið vonast til að hægt verði að draga uppsagnir til baka um leið og ástandið batnar og eftirspurn eftir flugi tekur við sér á ný,“ segir í tilkynningu Icelandair.