Hlutafjárútboði Icelandair verður seinkað og hlutum í boði verður fækkað. Stefnt er að því að birta útboðslýsingu á næstu dögum náist lending við ríkið um ríkisábyrgð á lánalínu. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Í vor samþykkti hluthafafundur Icelandair heimild fyrir félagið til að hækka hlutafé um allt að 30 milljarða króna. Hækkunin þurfti að eiga sér stað fyrir ágústlok. Áður en unnt var að hefja útboðið þurfti félagið að semja við lykilstéttir, lánadrottna og Boeing um framhaldið. Þeim samningaviðræðum lauk í síðustu viku.

„Tímalína hlutafjárútboðsins hefur verið uppfærð og er nú stefnt að því að útboðið fari fram í september. Þetta er með fyrirvara um samþykki hluthafa um að framlengja heimild félagsins til hlutafjáraukningar en heimild sem veitt var á hluthafafundi þann 22. maí sl. rennur út þann 1. september nk. Félagið mun því boða til nýs hluthafafundar á næstu dögum,“ segir í tilkynningunni.

Til viðbótar er gert ráð fyrir því að tillaga verði lögð fyrir hluthafafund sem felur í sér að stjórn félagsins verði heimilt að ákveða að hinum nýju hlutum í félaginu fylgi áskriftarréttindi sem samsvara allt að 25% af skráningu nýrra hluta í fyrirhuguðu útboði. Heimilt yrði að nýta þau í einu lagi eða í skrefum á allt að tveggja ára tímabili frá útgáfu samkvæmt nánari skilmálum sem stjórn ákveður.

„Icelandair Group stefnir að því að selja nýja hluti fyrir 20 milljarða króna að nafnverði á genginu 1 króna á hlut. Komi til umframeftirspurnar í hlutafjárútboðinu, myndi stjórn félagsins hafa heimild til að auka hlutafé enn frekar um allt að 3 milljarða þannig að stærð útboðsins yrði að hámarki 23 milljarðar króna,“ segir enn fremur í tilkynningunni. Upphaflega samþykkti hluthafafundur allt að 30 milljarða krona hækkun.