Icelandair Group hefur lokið sölu á 100% hlut í Iceland Travel til Nordic Visitor, en Samkeppniseftirlitið heimilaði kaupin 22. október síðastliðinn, líkt og kom fram í Viðskiptablaðinu . Þar kom fram að Nordic Visitor hafi einnig keypt ferðaskrifstofuna Terra Nova frá Arion banka í febrúar 2020. Nordic Visitor verður eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins við samruna þriggja félaganna.

Nordic Visitor greiðir 1,05 milljarða króna fyrir Iceland Travel, og hefur greitt þá upphæð að fullu. Auk þess eru 350 milljónir háðar frammistöðutengdum mælikvörðum og gæti heildarkaupverðið því endað í 1,4 milljörðum króna.

Þegar tilkynnt var um kaup Nordic Visitor á Iceland Travel í júní á þessu ári kom fram að Alfa framtak myndi fjármagna viðskiptin. Framtakssjóðurinn Umbreyting slhf., í rekstri Alfa Framtaks, mun kaupa 26% hlut í Nordic Visitor samhliða kaupum ferðaskrifstofunnar á Iceland Travel af Icelandair, samkvæmt samrunaskrá,

Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Nordic Visitor, sagði í viðtali við Markaðinn í sumar að fyrirtækin verði rekin áfram sem sjálfstæðar einingar. Stofnað verði móðurfélag fyrir samstæðuna á næstunni sem mun meðal annars sjá um stoðþjónustu rekstrarins.