Icelandair Group og Nordic Visitor hafa undirritað samning um helstu forsendur og skilmála kaupsamnings varðandi möguleg kaup hins síðarnefnda á öllu hlutafé í ferðaskrifstofunni Iceland Travel. Samningurinn er gerður með fyrirvara um skilyrði sem hefðbundin eru með viðskipti af þessum toga, svo sem framkvæmd áreiðanleikakönnunar, samþykki Samkeppniseftirlitsins og að aðilar nái saman um kaupsamning, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar í kvöld.

Icelandair segir að salan sé í samræmi við stefnu flugfélagsins um að leggja áherslu á kjarnastarfsemi sína, flugrekstur, með hagsmuni íslenskrar ferðaþjónustu, starfsmanna og annarra haghafa í fyrirrúmi.

„Iceland Travel hefur verið leiðandi ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi og mun áfram gegna lykilhlutverki í íslenskri ferðaþjónustu með nýju eignarhaldi,“ segir í tilkynningunni.

Söluferli Icelandair á Iceland Travel hófst í byrjun árs. Viðskiptablaðið sagði frá því í nóvember 2019 að fyrri áformum um sölu ferðaskrifstofunnar hefði verið slegið á frest.

Íslandsbanki er ráðgjafi Icelandair við söluna og Arctica Finance er ráðgjafi Nordic Visitor.