Icelandair hefur náð samkomulagi um sölu á þremur Boeing 757-200 flugvélum félagsins samkvæmt tilkynningu frá félaginu. Ganga á endanlega frá samningum á næstu vikum.

Söluverðið er 21 milljón Bandaríkjadala, jafnvirði um 2,9 milljarða íslenskra króna. Í tilkynningunni segir að það sé um tveimur til þremur milljónum dala yfir bókfærðu virði þeirra. Tvær vélanna voru framleiddar árið 1994 og ein árið 2000. Eftir afhendingu á að breyta flugvélunum úr farþegaflugvélum yfir í fraktvélar. Sala vélanna þriggja er sögð í samræmi við áætlun Icelandair um að fækka Boeing 757 vélum í flugflota félagsins á næstu árun.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir söluna koma félaginu til góða. „Sala þriggja Boeing 757 véla úr flota Icelandair er jákvætt skref fyrir félagið á þeim tíma þegar flugrekstur er í lágmarki. Sala vélanna sýnir að enn felast mikil verðmæti í Boeing 757 vélum Icelandair eftir áralanga þjónustu við félagið og þær muni nýtast nýjum eiganda áfram. Þrátt fyrir sölu þriggja véla býr félagið enn yfir öflugum flugflota sem mun nýtast vel þegar ferðatakmörkunum verður aflétt og eftirspurn eftir flugi eykst á ný,“ er haft eftir Boga í tilkynningunni.

Boeing 757 flugvélarnar hafa verið hryggjarstykkið í flugflota Icelandair. 26 af 39 flugvélum í flugflota Icelandair á síðasta ári voru Boeing 757. Stefnt er að því að skipta þeim út, meðal annars fyrir Boeing 737 Max flugvélar, en Icelandair mun alls eignast 12 slíkar flugvélar.