Icelandair, sem verið hefur einn allra stærsti auglýsandi landsins, hefur nú lokið rúmlega þriggja áratuga viðskiptatryggð við Íslensku auglýsingastofuna að því er Túristi greindi frá.

Að undanförnu hefur flugfélagið hins vegar leitað tilboða og hugmynda hjá fleiri auglýsingastofum og var niðurstaðan að leita til Hvíta hússins, en Gísli S. Brynjólfsson nýr markaðsstjóri Icelandair frá því í vor var áður framkvæmdastjóri og einn af eigendum auglýsingastofunnar.

Viðskiptin, sem numið hafa vel á annað hundrað milljónum króna á ári, færast því til Hvíta hússins, en ein fyrsta kynningarherferð auglýsingastofunnar mun að mati Túrista líklega snúast um að skapa traust á Boeing 737 Max þotum Icelandair sem hafa verið kyrrsettar frá ársbyrjun.

„Já, eftir langt og farsælt samstarf við Íslensku ákváðum við að endurskoða þessi mál,” segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, en hún segir þó að auglýsingastofurnar sem buðu í viðskipti félagsins hafi ekki verið beðin um hugmyndir um endurkomu vélanna sem samkvæmt nýjustu fréttum verða ekki fyrr en líklega á næsta ári.

Landsmenn þekkja vel auglýsingar Íslensku auglýsingastofunnar fyrir Icelandair, til að mynda í kringum EM og HM í knattspyrnu karla og kvenna, en samningar félaganna voru síðast endurnýjaðir árið 2016.