Icelandair hefur undirritað samkomulag við þrjú flugfélög, Porter Airlines í Kanada, Rossiya Airlines í Rússlandi og Air Greenland í Grænlandi. Samstarf Icelandair við þessi flugfélög felur meðal annars í sér sölu og farseðlaútgáfu á flugleiðum þannig að viðskiptavinir Icelandair geta nú keypt einn farseðil frá Íslandi til þeirra tuga áfangastaða sem þessi þrjú félög fljúga til í sitt hverjum heimshlutanum og jafnframt geta viðskiptavinir þeirra keypt miða til Íslands, Evrópulanda og Norður-Ameríku með flugi Icelandair.

Porter Airlines, sem hefur höfuðstöðvar í Toronto flýgur til um 20 áfangastaða í Kanada og Bandaríkjunum og býður upp á góðar tengimöguleika fyrir viðskiptavini Icelandair.

Rossiya Airlines er stærsta flugfélagið í St Pétursborg, sem Icelandair hóf áætlunarflug til í vor, og býður upp á tengingar við tugi borga í Rússlandi og víðar.

Air Greenland er þjóðarflugfélag Grænlendinga og býður upp á flug með flugvélum og þyrlum til fjölmarga bæja og byggða í Grænlandi.

„Samstarfið við flugfélögin eykur þjónustu við farþega, stækkar leiðakerfið og styður sókn okkar og tækifæri á ólíkum og vaxandi mörkuðum,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, í tilkynningu í tilefni af samkomulaginu.

Icelandair flýgur frá Keflavíkurflugvelli til Toronto og Halifax í Kanada og til 9 borga í Bandaríkjunum að auki. Þá flýgur Icelandair til St Pétursborgar í sumar og 24 annarra Evrópuborga á þessu ári.