Icelandair áætlar nú að verja allt að 10-20% meira en áður hafði verið ákveðið í markaðsherferð á þessu ári.

Þetta hefur tímaritið Airline Business eftir Birki Hólm Guðnasyni, framkvæmdastjóra Icelandair en tímaritið fjallaði nýlega um markaðsáætlanir flugfélaga, þá sérstaklega í ljósi þess efnahagsástands sem nú ríkir í heiminum.

Nú þegar sverfir að hjá flugfélögum út um allan heim þurfa félögin að móta sér stefnu í markaðsmálum. Þannig þurfa félögin að gera það upp við sig hvort þau ætli að verja fjármagni í stórar markaðsherferðir á meðan hagkerfin dragast saman eða draga saman seglin og spara  hvern eyri. Hvoru tveggja geti haft veruleg áhrif á starfssemi þeirra í framtíðinni.

Eins og áður kemur fram er Icelandair eitt af þeim félögum sem fjallað er um en í greininni kemur fram að innlendur markaður félagsins hefi orðið illa úti í efnahagshruninu í haust.

„Þegar það er niðursveifla verjum við meira fjármagni í markaðsstarfssemi,“ hefur tímaritið eftir Birki Hólm sem segir að það sama hafi verið gert eftir hryðjuverkaárásirnar í september 2001.

„Vegna fjármálaástandsins á Íslands einbeitum við okkur að erlendum mörkuðum,“ segir Birkir Hólm.

Hann segir að um leið og félagið dragi úr markaðsherferð sjáist það á bókunarstöðu þess en ef félagið er áberandi aukist viðskipti við félagið.

Grein Airline Business er löng og ítarleg og áhugaverð bæði fyrir áhugamenn um flugrekstur og ekki síður markaðs- og auglýsingaraðila.

Sjá grein Airline Business í heild sinni.